Á síðasta aðalfundi 28. apríl 1999 var Sigurður Þór Baldvinsson kosinn nýr formaður. Aðrir stjórnarmenn sem höfðu setið áður og voru endurkjörnir voru Sigrún Hauksdóttir, varaformaður, Anna Sigríður Gunnarsdóttir, gjaldkeri, Kristín Richardsdóttir, ritari, Guðbjörg Gígja Árnadóttir, meðstjórnandi, og Ragnhildur Bragadóttir varamaður. Endurskoðendur voru kosnir þeir Jónas Finnbogason og Þorsteinn Magnússon. Alls urðu stjórnarfundir 5 talsins og var síðasti stjórnarfundur sá 111. frá upphafi. Einnig var haldinn einn vinnufundur.

Stjórninni til fulltingis voru sex hópar og nefndir; fræðsluhópur, kynningarhópur, orðanefnd, siðanefnd, staðlahópur, útgáfunefnd og lagabreytinganefnd. Skýrsla kynningarhóps fylgir skýrslu stjórnar, en hér á eftir verður gerð grein fyrir starfsemi annara vinnuhópa og nefnda eftir föngum. Nefndarmönnum eru færðar þakkir fyrir góð störf í þágu félagsins.

Það er skemmst frá því að segja að á liðnu starfsári hefur hefur stjórnin ekki tekist á hendur ný verkefni. Þau mál sem hófust á síðasta starfsári héldust áfram í farvegi eða var lokið. Er þar helst að nefna að heimasíða félagsins komst í gagnið á nýrri vefslóð og er Kristínu Ósk Hlynsdóttur hér með þakkað sitt starf. Kristín mun sjá um viðhald vefsíðunnar.

Eitt tölublað af fréttabréfi félagsins kemur út á þessu starfsári. Efni hefur borist fyrir næsta tölublað og mun þar væntanlega einnig verða sagt frá þessum aðalfundi og nýjum stjórnarmönnum. Svanhildur Bogadóttir hefur haft veg og vanda að útgáfu fréttabréfsins og hvetur félagsins til að vera duglegir að leggja til efni.

Siðanefnd félagsins bárust engin erindi á árinu en nefndarmenn fylgdust með umræðu á sínu sviði.

Kynningarhópur hélt ekki fundi á starfsárinu en nokkuð upplag er enn til af kynningarbæklingi þeim er prentaður var á fyrra starfsári.

Orðanefnd hélt ekki formlega fundi en stjórn félagsins, ásamt formanni orðanefndar, mun vinna að því að afla styrkja fyrir gerð íðorðasafns á sviði skjalastjórnar. Það verkefni er of viðamikið til að hægt verði að sinna því eingöngu í sjálfboðavinnu.

Staðlahópur hélt ekki formlega fundi á árinu en nefndarmenn fylgjast með málefnum á sínu sviði.

Lagabreytinganefnd bárust ekki tillögur um lagabreytingar á starfsárinu og hélt ekki fundi.

Skráðir félagar eru nú 186 og hefur fjölgað um 8 frá síðasta ári. 11 nýir félagar bættust við en 3 hafa hætt.

Þó gerð sé grein fyrir störfum fræðsluhóps í skýrslu hans er rétt að minnast á hina sérlega vel heppnuðu ráðstefnu sem haldin var þann 23. febrúar 2000 í samvinnu við Skýrslutæknifélagið. Er það fyrst og fremst þeirri ráðstefnu að þakka að fjárhagur félagsins hefur batnað umtalsvert á árinu. Er formanni fræðsluhóps, Sigrúnu Hauksdóttur, sérstaklega þökkuð vel unnin störf.

Í lok þessarar stystu skýrslu stjórnar um árabil vil ég færa samstarfsfólki mínu í stjórn félagsins og nefndum og hópum þakkir fyrir samstarfið á árinu. Félagsmenn fá sömuleiðis þakkir fyrir að hafa sýnt áhuga á málefnum félagsins með góðri aðsókn að að fræðslufundum.

26. apríl 2000

Sigurður Þór Baldvinsson

formaður

Copyright © 2016 IRMA. All Rights Reserved. Hönnuð af Davið og Golíat.

Félag um skjalastjórn kt. 580189-2029 Pósthólf 8731, 128 Reykjavík