Hugvit hélt fjölmenna tveggja daga notendaráðstefnu í annað sinn 4.- 5. október síðastliðinn. Á annað hundrað GoPro-notenda og sölu- og þjónustuaðila frá átta löndum sátu ráðstefnuna. Meginmarkmið ráðstefnunnar var að skapa vettvang til að miðla þekkingu og reynslu milli hinna ýmsu hópa sem notast við mála- og skjalastjórnunarhugbúnaðinn GoPro. Þannig voru kynningar frá notendum kerfisins auk kynninga á nýútkomnum útgáfum hugbúnaðarins frá Hugviti.

Fastur liður á þessum notendaráðstefnum hefur verið málstofa þar sem skipt er í hópa notenda með svipaða nálgun á hugbúnaðinn til að þeir geti deilt sinni reynslu sín á milli og með starfsfólki Hugvits. Þessi hluti ráðstefnunnar gekk vel þrátt fyrir að þátttakendur væru frá ólíkum löndum og umræður færu því fram að hluta til á ensku. Hóparnir kynntu svo helstu niðurstöður umræðna í lokin og var það tekið saman. Með þessu móti var reynt að tryggja að tekið yrði mið af þeim athugasemdum sem bárust í vöruþróun og kynningum hjá Hugviti.

Margir fyrirlesarar komu fram á ráðstefnunni og kynntu verkefni þar sem GoPro hefur verið lykilþáttur við innleiðingu skipulegra verkferla og skjalastjórnunar fyrirtækja og stofnana. Meðal þess sem bar hæst voru fyrirlestrar Zoë Briault um uppsetningu rannsóknaumsjónarkerfis hjá Oxford-háskóla og fyrirlestur Ludgers Helm hjá IBM um nauðsyn þess að nýta rafrænar lausnir til að tryggja samhæfingu við sívaxandi magn reglugerða og staðla sem fyrirtæki og stofnanir þurfa að kljást við í sínu daglega starfi.

Í fyrirlestri sínum ræddi Ludger um mikilvægi þess að nota skjalastjórnunarlausnir til að styðja við samhæfingu og benti á nýleg dæmi um hneyksli sem upp kom í Formúla 1-kappakstrinum því til stuðnings. Rétt vinnubrögð og skjölun upplýsinga skipta sköpum þegar slík mál koma upp.

Zoë Briault fór hins vegar ofan í saumana á hönnunar- og innleiðingarferli nýs rannsóknaumsjónarkerfis hjá rannsóknarþjónustu Oxford-háskóla sem verið hefur í vinnslu frá árinu 2004 og byggir að öllu leyti á GoPro. Oxford-háskóli nýtir sér mikið stuðning kerfisins við uppsetningu verkferla og er þetta kerfi gott dæmi um hvernig flóknir og umfangsmiklir verkferlar geta verið settir upp í GoPro . Rannsóknarþjónustan nýtir GoPro-lausn fyrir skjölun þeirra rúmlega 2000 rannsóknarstyrkja sem skólinn fær árlega, frá umsókn að eftirfylgni og skýrslugerð. Upphæð rannsóknarstyrkjanna er sem er haldið utanum í kerfinu er í tugum milljarða.

Auk þess voru á ráðstefnunni fjöldi annarra kynninga og má nefna sem dæmi kynningu Jónasar Péturssonar á innleiðingu GoPro hjá sýslumannsembættunum, Guðfinnu Kristjánsdóttur sem ræddi íbúavefinn Minn Garðabæ og Friðriks Guðnasonar frá Landsbankanum sem fjallaði um rafræna skjölun verkferla innan bankans. Samhliða fyrirlestrum var boðið upp á málstofur þar sem starfsmenn í vöruþróun fóru í gegnum nýjustu útgáfur GoPro.net og GoPro Professional með þátttakendum.

„Það er von okkar að reynsla af mismunandi notkun á GoPro skili sér milli notenda á þessum vettvangi og geti þannig aukið gildi lausnanna." segir Jón Alvar Sævarsson, markaðsstjóri GoPro. „Jafnframt er þessi ráðstefna mikilvæg fyrir okkur og einn liður í því að ná fram óskum og þörfum notenda svo við getum gert góðar lausnir enn betri."

Á ráðstefnunni komu fram eindregnar óskir um að gera hana að árlegum viðburði, en síðasta notendaráðstefna var haldin árið 2005. Fram kom í máli þátttakenda að þeir töldu sérstaklega gagnlegt að fræðast af reynslu annarra notenda um það hvernig hægt er að nýta GoPro við ólíkar aðstæður.

Áki G. Karlsson, GoPro

Copyright © 2016 IRMA. All Rights Reserved. Hönnuð af Davið og Golíat.

Félag um skjalastjórn kt. 580189-2029 Pósthólf 8731, 128 Reykjavík