Á síðasta aðalfundi 25. apríl 2001 voru kosnir 3 nýir stjórnarmenn. Andrés Erlingsson var kosinn varaformaður og Alma Sigurðardóttir og Guðrún Erlendsdóttir sem stjórnarmenn. Sigurður Þór Baldvinsson sat áfram sem formaður. Auk hans sátu áfram Eyrún Björk Gestsdóttir og Ragnhildur Bragadóttir varamaður. Endurskoðendur voru kosnir þeir Jónas Finnbogason og Þorsteinn Magnússon. Alls urðu stjórnarfundir 8 talsins og var síðasti stjórnarfundur sá 128. frá upphafi.

Félagar í Félagi um skjalastjórn eru nú 190 og hefur fjölgað um 4 á árinu. 6 nýir félagar hafa gengið til liðs við félagið og 2 hætt af ýmsum ástæðum.

Í síðustu skýrslum stjórnar hefur verið fjallað um vinnuhópa sem hafa unnið að ýmsum verkefnum félagsins. Á liðnu starfsári stjórnar er minna en áður að segja en þar er ekki við þá sem í hópunum starfa að sakast, heldur það að formaður hefur ekki kallað félagsmenn til starfa. Félagið hefur þó haldið uppi starfsemi og unnið að verkefnum og á árangur hluta af þeirri vinnu eftir að koma í ljós.

Allir liðsmenn fræðsluhóps sögðu af sér eftir síðasta starfsár og hefur umsjón fræðslufunda verið í höndum stjórnarmanna undir forystu varaformanns. Farið var í 3 fræðsluheimsóknir á árinu. Fyrst ber að nefna heimsókn í SKÝRR þar sem kynnt var fyrir okkur Erindreki skjalastjórnunarkerfið (16 manns mættu), Ljósmyndasafn Reykjavíkur og fræðst um varðveislu, skráningu og flokkun ljósmynda (afar góð mæting, um 40 manns) Best var mætt í heimsókn í Þjóðskjalasafnið og var þar hlýtt á áhugaverðan fyrirlestur um varðveislu rafrænna gagna. Ætlunin var að fara í fleiri heimsóknir en erfitt var að fá stofnanir og fyrirtæki til að taka á móti okkur sökum anna viðkomandi og hamlaði það frekari heimsóknum. Margt er þó í deiglunni sem verður kynnt síðar.

Ekkert fréttabréf kom út á starfsárinu en næsta tölublað er svo gott sem tilbúið. Ritstjóri hefur verið erlendis við nám.

Snemma á starfsárinu voru gerðar breytingar á vef Þjóðskjalasafns Íslands en þar er heimasíða félagsins geymd. Við breytingar datt síðan út og reyndist ekki unnt að halda henni áfram inni með sömu slóð. Hin nýja slóð er www.skjalastjorn.archives.is. Stjórnin lét athuga lauslega kostnað við að eignast eigið veffang en kostnaður við það er talsverður. Ekki var tekin ákvörðun á starfsárinu um að kaupa veffang.

Í lok þessarar skýrslu vil ég færa samstarfsfólki mínu í stjórn félagsins og nefndum og hópum þakkir fyrir samstarfið á árinu. Félagsmenn fá sömuleiðis þakkir fyrir að hafa sýnt áhuga á málefnum félagsins með aðsókn að fræðslufundum og heimsóknum.

30. apríl 2002

Sigurður Þór Baldvinsson

formaður

Copyright © 2016 IRMA. All Rights Reserved. Hönnuð af Davið og Golíat.

Félag um skjalastjórn kt. 580189-2029 Pósthólf 8731, 128 Reykjavík