Nýr prófessor við Háskóla Íslands

Dr. Jamie Rose Johnston hefur verið skipuð prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands frá 1. mars 2025. Hún hefur kennt við deildina frá árinu 2019 og býr yfir víðtækri menntun og reynslu á sviði bókasafns- og upplýsingafræði, meðal annars með doktorsgráðu frá OsloMet og meistaranámi í alþjóðlegum fólksflutningum og þjóðernisrannsóknum frá Malmö-háskóla.

Rannsóknir Jamie beinast meðal annars að því hvernig bókasöfn og menningarstofnanir geta gegnt lykilhlutverki í að efla aðgengi að þekkingu og styðja við samfélagslega uppbyggingu. Sérstaka athygli hefur hún beint að hæfni upplýsingafræðinga og þátttöku notenda í mótun þjónustu, sem og þróun alþjóðlegra verkefna tengdum upplýsingalæsi og aðgengi að upplýsingum – ekki síst fyrir innflytjendur og flóttafólk.

Hún heldur meðal annars utan um alþjóðlega rannsóknarhópinn Public Libraries for Immigrants and Refugees (PubLIB), auk þátttöku í fjölmörgum styrktum evrópskum verkefnum eins og Baltic UKH og NIAGARA. Þá situr hún í stjórn BOBCATSSS, stofnunar sem vinnur að framþróun upplýsingafræði innan evrópskra háskóla.

Við bjóðum Jamie hjartanlega velkomna í nýtt hlutverk og hlökkum til að fylgjast með framlagi hennar til fræða og þróunar á sviði skjalastjórnar og upplýsingafræði.