Kæru félagar,
við viljum þakka ykkur fyrir gott samstarf á árinu og minna á það sem hefur verið á döfinni hjá Félagi um upplýsingastjórnun.
Í haust stóð fræðslunefndin fyrir tveimur fræðslufundum ásamt eftirvinnuspjalli á Reykjavík Bruggfélag.
- Óskar Þór (Reykjavíkurborg) deildi reynslu sinni af ráðstefnum og kynnti yfirlitsskjalið sitt um komandi og liðnar ráðstefnur.
- Kristjana Mjöll (Landsbókasafn) fjallaði um skylduskil í stafrænum heimi og minnti á að kröfur til skila á útgefnu efni minnka ekki þótt útgáfan sé rafræn. Rætt var um rafhladan.is og vefsafn.is.
Nánari upplýsingar um erindin má finna hér á vef félagins.
Fram undan:
Í stað ráðstefnu í vor hefur stjórnin ákveðið að bjóða upp á einstakt námskeið.
Fimmtudaginn 12. mars kl. 13–16 verður Anna Kristín Agnarsdóttir, lögfræðingur og ráðgjafi hjá Crayon, með Masterclass erindi varðandi öryggisflokkun gagna og hvernig við getum undirbúið gögn skipulagsheilda fyrir innleiðingu gervigreindar. Markmið viðburðarins er að gestir fái nytsamlegar upplýsingar til að nálgast viðfangsefnið.
Námskeiðið verður á Hótel Natura, Nauthólsvegi og að því loknu verður boðið upp á léttar veitingar. Skráning hefst fljótlega eftir áramót.
Takið daginn endilega frá!
Stjórnin á einnig bókaðan fund með Þjóðskjalasafni Íslands í janúar til að fjalla meðal annars um vörsluútgáfur og rafræn skil, málsmeðferðarhraða hjá Þjóðskjalasafni Íslands ásamt fleiri mikilvægum málefnum. Við munum upplýsa ykkur um niðurstöður fundarins síðar.
Auk viðburðarins um öryggisflokkun gagna verða að minnsta kosti tveir fræðslufundir á dagskrá.
Við hlökkum til að sjá ykkur á nýju ári og óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
