Fjórði fræðslufundur starfsársins 2016 – 2017 var haldinn þann 26. janúar 2017 í Þjóðskjalasafni Íslands.
Á fundinum fjallaði Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor í upplýsinga- og skjalastjórn, um nokkrar niðurstöður kannana frá 2015-2016 um viðhorf fólks til upplýsingagjafar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort svarendur teldu stjórnvöld leyna mikilvægum upplýsingum sem ættu erindi við almenning og varða almannahagsmuni annars vegar og opinber útgjöld hins vegar meðal annars með tillitil til eftirlits hins opinbera. Samkvæmt niðurstöðum þessara kannana taldi mikill meirihluti svarenda að slíkar upplýsingar væru ekki á borð bornar fyrir almenning. Þessar niðurstöður voru bornar saman við fyrri könnun um sama málefni sem framkvæmd var 2012.
Í samræmi við íslensk lög er stjórnvöldum skylt að virða upplýsingarétt almennings. Þeim ber að halda í heiðri rétt borgaranna til aðgengis að upplýsingum sem liggja hjá stjórnvöldum, þó með vissum takmörkunum sem varða einka- og almannahag. Skjalastjórar erlendis og hérlendis hafa í vaxandi máli horft til þess að nýta þekkingu sína á sviði upplýsinga- og skjalastjórnar og koma henni á framfæri til þess að bæta megi vinnubrögð sem og hlýtingu laga og reglugerða.
Jóhanna Gunnlaugsdóttir er prófessor í upplýsinga- og skjalastjórn og rafrænum samskiptum hjá skipulagsheildum. Hún hefur starfað við Háskóla Íslands sl. 16 ár en áður vann hún ásamt öðrum hjá ráðgjafarfyrirtæki á sviði upplýsingamála, Gangskör sf., í u.þ.b. 20 ár og vann með liðlega 100 fyrirtækjum og stofnunum.