Skýrsla Þjóðskjalasafns um skjalageymslur ríkisins

Fræðslufundur 23. nóvember 2021

Næsti fræðslufundur Félags um skjalastjórn verður haldinn þriðjudaginn 23. nóvember kl. 12 í Þjóðskjalasafni Íslands. Einnig verður streymt frá fundinum.

Njörður Sigurðsson sviðstjóri skjala- og upplýsingasviðs hjá Þjóðskjalasafni Íslands mun fjalla um skjalageymslur ríkisins.

Skjalageymslur og pappírsskjöl ríkisins – staða og stefna
Þjóðskjalasafn Íslands gaf út í september síðastliðnum skýrslu með niðurstöðum eftirlitskönnunar safnsins á skjalageymslum afhendingarskyldra aðila ríkisins sem framkvæmd var í júní í sumar. Í skýrslunni kemur fram að umfang pappírsskjala hjá ríkinu hefur aukist gífurlega á undanförnum árum og pappírsskjöl eru geymd á mörg þúsund fermetrum hjá stofnunum, embættum og fyrirtækjum ríkisins. Þessi þróun hefur orðið á sama tíma og nánast öll skjöl ríkisins eru mynduð í rafrænum gagnasöfnum og mikil áhersla er á stafræna umbreytingu stjórnsýslunnar. Í erindinu verður fjallað um þessa stöðu, samspil rafrænnar stjórnsýslu og skjalavörslu og skjalastjórnar og hvernig Þjóðskjalasafn vill takast á við þessa stöðu.

Athugið að félagsmenn þurfa að vera innskráðir til að geta skráð sig á fundinn.

Fræðslufundur 18. mars 2021

Næsti fræðslufundur Félags um skjalastjórn verður haldinn þriðjudaginn 18. mars kl. 16  á Teams. 

Sigurður Þór Baldvinsson upplýsingafræðingur og yfirskjalavörður í utanríkisráðuneytinu verður með erindi á næsta fræðslufundi okkar. 

Sigurður Þór hefur víðtæka þekkingu og reynslu og var meðal annars formaður Félags um skjalastjórn í 4 ár. Nú í febrúar voru í fyrsta skipti birtir listar yfir mál í málaskrám allra ráðuneyta. Birtingin er í samræmi við 13. gr. upplýsingalaga þar sem segir. „Ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands skulu birta upplýsingar úr málaskrám sínum með rafrænum hætti.

Að lágmarki ber að birta skrá yfir mál sem eru til meðferðar í ráðuneyti í tilefni af innsendu eða útsendu erindi þar sem tilgreint er málsnúmer og heiti máls. Upplýsingarnar ber að birta eigi síðar en í næsta mánuði eftir að mál er stofnað.

Í erindinu verður fjallað um aðdragandann að birtingu fyrsta listans, álitamál sem rædd voru og hvaða áhrif birtingin hefur á uppsetningu skjalastjórnarkerfis stjórnarráðsins og verklag. Einnig verður rætt um hugsanleg önnur áhrif sem breytingin kann að hafa á skjalaskráningu og skjalastjórn í Stjórnarráðinu.